Frasar sem ég skil ekki

Núorðið hlýtur fólk að vera meira á ferðinni, vegna þess að það er sífellt að koma að hlutum.

Til dæmis var hér um árið auglýsing: "Þegar þú vilt gott bragð þegar kemur að ávaxtasafa..."

Þetta olli mér vangaveltum. Hvaða bragð var mér efst í huga seinast þegar ég kom að ávaxtasafa? Það mundi ég ekki. Súkkulaði? Pipar? Lýsi? Margt kom til greina.

En venjulega þegar ég kem að ávaxtasafa, þá reyni ég að rekast ekki í hann svo hann hellist ekki niður, eða ef hann er þegar kominn í gólfið, að stíga ekki í hann.

Þegar kemur svo að lágvöruverzlunum, þá er gott að stíga á bremsuna til þess að keyra ekki inn.

Merkilegt hvað maður hefur fallið út úr þessum frasa, og kemur bara svona ópersónulega að öllu... en hvað um það:

Í lágvöruverzlunum fær maður lágvörur. Teppi, parket, kannski þessi lágu kaffiborð sem fólk er með inni í stofu.

Venjuleg borð, kommóður og stóla fær maður svo í millihæðarbúðum, og svo er farið í hávörubúðir til að fá sér ljósakrónur og slíkt.

Hvað varðar hávörubúðir? Nú, tveir bautasteinar, auðvitað, 30 tonn hver.

Ekki er mér fullljóst hvaðan allir þessir undarlegu frasar eru komnir, en ég hef útlenda fréttamenn grunaða, enda eru þeir margir miklir bögubósar.

Eins frasa hef ég alla tíð saknað hér heima, sem ældist oft úr munni breskra, og það var "at the end of the day." Þann frasa hefði ég fílað að heyra í íslenskri orðræðu, til dæmis:

Þegar maður vaknar að morgni við vekjaraklukkuna er að lokum dags gott að slökkva á henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband