Þar á það heima

Braggamálið.

Annars er tvennt þar, í braggamálinu þ.e.a.s sem vekur mig til hugsunar.  Um óskilda hluti, en tengda.

1: þessi gaur sem ég man ekki hvað heitir, en rukkaði borgina um 100.000 kall fyrir að hanna letur.  Fyrir utan að vera eitt það tilgangslausasta sem ég hef heyrt lengi, þá velti ég mér strax fyrir því hvort sá gaur sá ekki eftir því, þegar hann komst að öllu svínaríinu í kringum braggann, að hafa ekki rukkað nema 100K?

Ég meina, hann hefði geta rukkað þá um 1.000.000, og þeir hefðu borgað.  Engin spurning.

Tapað tækifæri.

2: 42 milljón króna kamarinn.

Nei; það heitir víst "náðhús," við hin sem skiljum ekki hve rómantísk endalok meltingar eru köllum það kamar.  Og kamar sem kostar 42 milljónir hlýtur að vera of merkilegur til að vera kallaður kamar, eða dolla, eða bara salerni.  Náðhús skal það kallast.  Það var sérstaklega minnst á að það væri svo gott útsýni af kamrinum.  Eða úr náðhúsinu.

Vinnufélagi minn fór og skoðaði þetta, og sagði að það væri vissulega frábært útsýni af þesusm kamri.  Engar frekari lýsingar fylgdu, en þar sem þetta kostaði 42 milljónir, þá kemst ímyndunaraflið á flug.

Hverskonar kamar fær maður á 42 milljónir?

Já...

Ég sé fyrir mér að þegar þú kemur inn, þá spilast tónlist.  Mozart.  Mozart er eina vitið á kamrinum.  Ekki ganga örna þinna í takt við neitt annað.  Sérstaklega ekki fyrir 42 milljónir.

Klósettið sjálft er sko de-lúx.  Ef þú opnar það, þá sé ég fyrir mér ofaní því gullslegna mynd af Degi B sjálfum, brosandi upp til okkar þar sem við skimum niður og gefandi okkur þumalinn upp.  Og við veitum honum þannig alltaf táknrænt gullregn.  Því annað er ekki hægt á 42 milljón króna kamri.  Með frábæru útsýni.

Þetta er svona Feng Shui eitthvað.

Nú, ef menn þurfa að létta af sér þéttari úrgangi, þá held ég, er alveg viss um að setið sé þannig að menn geti á meðan notið þessa goðsagnakennda útsýnis út í bakgarðinn, eða yfir á Háskólann eða hvert sem þetta útsýni eiginlega er.  Þarf að kynna mér það við tækifæri.

Í 42 milljón króna salerni hlýtur að vera takki, þar sem menn geta ýtt á til að hóa í hóp erótískar dansara sem geta sprellað eitthvað fyrir utan gluggann, ef menn eru orðnir leiðir á útsýninu.  Kannski búnir að koma þarna oft, vegna vinnu eða alkóhólisma.  Þetta er jú hluti af bar.

Þegar menn setjast á settið, þá er ég viss um að þá blásist upp rósa-ilmur, sem mun yfirgnæfa hvaða stybbu sem menn gætu hugsanlega gefið frá sér aðra.  Og það hlýtur að vera nudd í setunni líka.

Svo, þegar menn hafa létt á sér, þá þurfa menn ekki að hafa við það nein handtök, heldur fer af stað gervihnattastýrður skeinari, stýrt af manni sem hefur verið að fylgjast með allan tímann frá Thælandi.  Sérfræðingur á sínu sviði, sérstaklega þjálfaður af þar til gerðum munkum í dimmum skógum Burma.

Geri ég fastlega ráð fyrir að hver ferð á kamarinn geti kostað borgina allt að 50.000 krónum.  Veit ekki hvort háskólinn verður rukkaður fyrir það.  Það mun sennilega koma fram við yfirheyrzlur.

Annars, gott mál allt saman.


mbl.is Vilja senda braggamál til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband