Það er smá rok.

Hvaða væll er í fólki útaf þessu? Við búum á íslandi, hér gerist á hverjum vetri að eitt og eitt þak fýkur. Það þekkist vel að bílar fjúki undir vissum fjöllum. Við vitum þetta, þetta er ekkert nýtt.

Samt, í hvert skifti er eins og allir verði voða hissa þegar það kemur smá rok eftir 4 mánaða hlé.

Þegar amma var ung voru veðrin miklu verri. Þá þótti ekkert undarlegt þótt heilu fjallgarðarnir fykju á haf út, með mönnum og kindum, og sæust aldrei aftur. Svo, ef amma var heppin, slotaði veðrinu í einn eða tvo daga.

Það var kallað sumar.

Eitt sinn var veðrið svo djöfullegt að menn urðu að halda í skottið á hundunum sínum á meðan þeir hleyptu þeim út svo þeir fykju ekki.

Það var sko enginn lúxus þá. Nei, þá svaf fólk á rúmum tálguðum úr grýlukertum, og mokuðu svo yfir sig snjó til að halda sér hlýju. Ekki eitthver teppi og slíkur lúxus eins og er nú.

Þá voru moldargólf. Ég man ekki eftir þeim, svo gamall er ég ekki, í mínu ungdæmi sáldruðum við glerbrotum á gólfið til að halda fótumun hlýrri á morgnana. Sá sem vaknaði seinast var heppnastur, því þá var gólfið farið að verða hlýtt og notalegt af blóði hinna sem höfðu gengið á því áður.

Nú er fólk með upphituð gólf.

Fólk er ekki jafn hard-core og það var, bara fyrir svona 15 árum. Og þá var sko í gangi lúxus sem ömmu blöskraði. Þá slotaði rigningunni stundum. Þá komst helmingur allra barna á legg, og þar af allt að 1/4 án þess að missa útlim.

Pælið í því.

Þegar amma var ung dóu allir. Tvisvar. Þá voru til menn, sem voru kallaðir "prestar" sem störfuðu við það að lífga fólk við, og svo hart var í ári þá að þeir höfðu ekki undan. þess vegna var heppni ef af 10 afkvæmum tókst að halda einu lifandi nógu lengi til að gjóta. Ég meina eignast börn.

Þegar amma var ung var ekki til skóli. Það var ekki búið að finna hann upp þá, en það þýddi sko ekki að amma yrði ekki að ganga í hann, og það með storminn í fangið!

Það var ekki fyrr en upp úr 1960 að skólinn var kynntur til sögunnar á Íslandi, og þá fyrst fékk amma að hætta að ganga.

Krakkar nú til dags fara í skólann á bíl. Lúxus, það. Ekki var mér keyrt. Nei. Ég gekk. Í stormum og stórsjóum, á fokking árabát, til fokking Grímseyjar.

Þá var veðrið miklu verra en núna. Þá kom sko kafaldsbylur inni í stofu, og það ef maður var heppinn.

Það voru líka allt öðruvísi krakkar þá. Þá þurfti skóla-þrjóturinn að hafa fyrir því sjálfur að misþyrma þeim sem voru minni en hann, og gat átt á hættu hvenær sem var að vera bara kýldur á móti.

Ekki svo núna. Nú þarf hann aðstoð frá kennurunum, en á móti getur hann kært þau fórnarlamba sinna sem gerast svo kræf að mótmæla því til lögreglu.

Nútímamaðurinn er mesti foráttu-lúði.

Nei. Þetta rok er sko ekkert merkilegt. Hættið að gera ykkur veður útaf því. Þetta þótti logn fyrir bara 15 árum, og tilefni til sólbaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband